<$BlogRSDUrl$>
Google

sunnudagur, október 03, 2004

Óskilamunir 

Sælinú, félagar. Þá er runninn upp enn einn mánuðurinn í heimi hér. Lítt um ný tíðindi, ó sei sei, nei.

Ég fór í haustferðalag með vinnufélögum í gær. Við fórum í langferðabifreið austur í Flóa og skoðuðum þar Knarraróssvita, sem mun vera með hæstu vitum á landinu, um 30 metra hár upp í ljós. Óðs manns æði að klifra upp glannalega stigana en viti menn; óðir menn reyndust þeir flestir. Ég hélt sönsum á jörðu niðri. Svo var farið á Stokkseyri. Fyrst skoðuðum við afrakstur föndurnámskeiðs Kvíabryggju á Stokkseyrarbryggju, þ.e. hnullungana hans Árna Joð, á meðan við nutum nærveru sjávar og mauluðum Sómasamlokur. Svo tók við allnokkuð súrreal upplifun inni í lista- og menningarverstöðinni á staðnum; nefnilega hljóð-og myndverkið "Brennið þið vitar", að loknum alllöngum formála einhvers fyrirsvarsmanns, sem ekki kynnti sig en gaf upp að hann væri ættaður úr Önundarfirðinum. Mikill Stokkseyringur í hjarta þó og stoltur af sínum Páli Ísólfssyni. Listaverkið fer fram í stórum sal. Hópnum er komið fyrir á svörtum plaststólum sem snúa að stórum vegg sem á er málað mikið verk eftir Elfar Guðna, hinn mikla málara heimamanna. Verkið er úfinn sjár, nokkuð ásjálegur, í bakgrunn, en aðalmyndin er risavaxið groddalegt Ísland, kúkabrúnt (þið munið litinn sem aldrei var kallaður annað en líkist ekki venjulegum kúkalit, nema þá helst hjá litlum börnum...). Á Íslandinu er mynd af Páli Ís og vitanum og Davíð Stefánssyni, en hann er hafður á Norðurlandi (sko, af því að Fagriskógur er á Árskógsströnd í Eyjafirði eins og allir vita). Svo er eitthvað meira skraut. Nema hvað, alls staðar á og við landið þar sem vitar eru staðsettir eru litlir hnappar. Svo er kveikt á kerti sem lítur út eins og Knarraróssvitinn og kertið sett á mitt gólf milli veggjarins og áhorfendanna. Ljósin slökkt í salnum. Ýtt á "plei" á geislaspilaranum og karlakórinn Þröstur hefur upp raust sína. Á meðan hinn ódauðlegi óður til íslenskra sjómanna dynur á manni kviknar á hverjum vitahnappnum á fætur öðrum á veggnum þar til allir vitar landsins loga og eftir því sem leikar æsast og lagið magnast verður ljósagangurinn á veggnum trylltari og ég að pissa í mig af hlátri yfir öllu saman. Gjörsamlega heilluð þó af senunni. Gat ekki annað en velt vöngum yfir því hvað Svíarnir okkar, skiptinemarnir sem voru með í för, væru að hugsa. Eftir þessa uppákomu fengum við að rölta um og skoða vinnustofurnar og galleríin í húsinu áður en við settumst að drykkju á Draugabarnum (sem innfæddir segja að sé óðum að verða vinsælasti skemmtistaðurinn á Suðurlandi). Stokkseyrarheimsóknin náði svo hámarki í Draugasetrinu sjálfu. Bú!! Segi ekki meir. Þaðan var svo haldið á Eyrarbakka og borðað í Rauða húsinu. Frábær matur og fyrirtaksþjónusta. Mæli með staðnum. Þegar slökkviliðsmenn héldu að þeir væru orðnir að karlakórnum Fóstbræðrum var þeim sópað út í rútu og skverað í bæinn. Þar tók við meira djamm en ég dreif mig heim í faðm feðganna. Var enda eldhress í morgun og fór í göngutúr með syninum, á Þjóðminjasafnið og í Norræna húsið. Frábær dagur í dag.

En, það sem ég ætlaði nú að skrifa í þessu bloggi var að eitthvað er um óskilamuni á Leifsgötunni eftir náttfatapartý síðustu helgar. Það sem ég hef að bjóða er:
- Gallabuxur á 9 ára strák.
- Grá húfa.
- Stuttermabolur merktur Nesjavöllum.
- Svartar neðanafklipptar sokkabuxur.
Ef einhverjir kannast við eigendurna má gjarnan láta mig vita.

þriðjudagur, september 28, 2004

Til móts við Lúfr og Signu. 

Það er merkilegt að daginn fyrir ferðalög verður manni óskalega lítið úr verki og þá bloggar maður að beiðni Skottu.

Ég er sem sagt á leiðinni tíl Parísar (lesist: pagrhí) með spúsu og hóp úr vinnunni. Verð á þessu hóteli, og borða hér og hér.

Og eins og Svölu litlu hér um árið þá "hlakka ég svo til".

Lúfr, turninn, Vatnaliljur kollega míns Monet og náttúrlega Mona. Allt svo spennandi og fyrir listaspíru eins og Olbap.
Þá er stefnan einnig sett á Picasso safnið og svo náttúrulega að hitta Sigurboga.

Ég er ákveðinn í að kaupa mér kopp í París.

Au revoir......

mánudagur, september 27, 2004

ehem..

nú finnst mér eiginlega að einhver ætti að blogga ...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com