<$BlogRSDUrl$>
Google

laugardagur, júní 28, 2003

Ómægúddness, nýtt lúkk á bloggernum! 

Ég get svo sagt ykkur það. Þetta er allt annað umhverfi sem við skrifum í, skrifararnir.

Við vorum að koma úr fermingarveislu. Ormurinn stöllu minnar Frumrósu var að fermast. Mér finnst eins og getnaðurinn hafi gerst í gær en þarna stóð hann þessi elska, eins samsvarandi sér og hægt er að vera á fermingardaginn sinn, strokinn og fínn í jakkafötum með bindi, hálffullorðinn, glæsilegur og svellkurteis gestgjafi. Sagði við Madda litla í gær að hann mætti mæta í kirkjuna ef hann lofaði að hlæja ekki að sér í kuflinum. "Þetta heitir kyrtill, Hallgrímur," sagði ég. "Whatever," svaraði fermingardrengurinn. Ég fór nú að velta fyrir mér hvers vegna þessi kufl er kallaður kyrtill. Kannski af því að hann er svo þröngur í hálsinn.

Maddurinn mætti sumsé í kirkju í morgun klukkan ellefu, í sparifötunum. Söng ó jesú bróðir besti og fipaðist í faðirvorinu, sjálfum sér til mikillar armæðu. Fór í fýlu út í móður sína þegar hún neitaði að smygla til hans oblátu, en tók gleði sína á ný þegar hann sá prestinn lyfta kaleik hátt á loft; hélt hún ætlaði að hella úr kaleiknum yfir sig.

Ormurinn var fermdur af föðursystur sinni og var eina fermingarbarnið. Athöfin var öll hin persónulegasta og einungis nánasta fjölskylda og vinir voru viðstaddir. Messusöngur var allur í okkar höndum. Eiginmaður prestsins lék á orgelið (ég held hann hafi dottað einu sinni, alla vega missti hann hendurnar niður á nótnaborðið í miðri bæn) og systir hennar þjónaði með henni við altarisgönguna.

Veislan var haldin á þriðju hæðinni í Borgarleikhúsinu (á sama stað og píkusögur eru sagðar). Þar var skreyttur salur með leikmunum og fíneríi. Veitingarnar voru ekki af óæðri endanum, gúllassúpa og heimabakað brauð, ostar og pylsur og fleira og eftirréttur sem sendur af himnum ofan; amérísk súkklaðiskaka með ís og berjum. Ég var svo södd að mér var hugsað til fermingarveislu einnar í Hrísey fyrir mörgum árum sem var víst svo vegleg að í hana er svo vitnað: "Veitingarnar voru sko ekki skornar við öxl, enda ældu allir eins og munkar í ferjunni á leiðinni í land."

Í gær vorum við í annarri veislu. Sextugsafmæli Strúnu. Þar var fátt við öxl skorið. Fólk náði því jafnvel að fyllast á þeim tveimur tímum sem ég staldraði við. Hápunktur veislunnar var þegar afmælisbarnið fletti umbúðunum af Ragnari Bjarnasyni stórsöngvara. Önnur eins gleðilæti í jafnstórum hópi kvenna hefi ég aldrei heyrt, en þó heyrt því fleygt að dansflokkurinn Chippendales geti framkallað svona hljóð á sýningum sínum. Ekki vissi ég að RB fengi íslenskar konur að kikna svo í hnjám. Ég fór að spukulera í því hvort einhver skemmtikraftur myndi fá mig og vinkonur mínar til þess að kikna og veina þegar ég verð sextug. Ætli þeir séu ekki flestir þegar búnir að geispa golunni úr alnæmi eða óverdós, þeir sem til greina hefðu getað komið.

Mikið væri gaman að halda upp á sextugsafmælið sitt með svona mörgum vinkonum sínum. En fyrst er það fertugs. Við ætlum að hafa það stórt. Strax byrjuð að plana þó enn séu tvö ár í það.

föstudagur, júní 27, 2003

Hiti og sviti 

Þetta er nú meiri sælan.
Hér er svo heitt að nánast ekkert er hægt að gera nema liggja í móki.
Ég tapaði allavega líter af vökva við að hjóla heim úr vinnunni í dag. Lavi litli er duglegri en ég.. ég hef ekki komist lengra en að tala um að fara í ræktina. Ég verð þreytt af tilhugsuninni einni saman. Enda heitir ræktin hjá mér Hard Work Studio.
Ég hjóla hins vegar í vinnuna á hverjum degi. Það er klukkutíma hreyfing á dag. Ég enda yfirleitt hjólatúrinn í þvílíku svitabaði að ég verð að skella mér í sturtu þegar ég kem heim. Verra er það í vinnunni, þá er ég bara með pínlega blauta bletti í fötunum mínum sem þorna svo þegar líður á daginn og mér kólnar niður. Svo hnerra ég þvílík ósköp.

Ég er með fullt hús af fólki.. það þýðir að tveir eru í heimsókn.
Bella bjúta er í bíó með frændum sínum en meiningin er að það verði fótsnyrting hjá okkur dömunum í kvöld. Ekki er víst að hún endist svo lengi vakandi en þá verða tærnar bara lakkaðar í fyrramálið áður en farið verður í Tívolí.
Hún er nebblega bara búin að fara á Bakkann.
Ég hlakka mest til að kynna fyrir henni töfraarbandið sem hleypir manni eins oft og maður vill í öll tækin.

Á sunnudaginn ætla ég svo að hoppa upp í rútuna hennar Bjarkar á leiðinni til Roskilde og sjá hana spila um kvöldið, áður en ég fæ far með henni heim aftur. Fínt að eiga svona Unuvinkonu sem segir skemmtilegar sögur af því að hafa hitt Iron Maiden á síðasta hóteli og reddar manni á gestalista á lokatónleika Roskilde Festivalsins.

Vinnan er æði. Segi ekki meir.
Jú, segi meir. Þeir gerðu mistök hjá launadeildinni og drógu af mér 60% í skatt. Ég fékk því aðeins 40% af brúttólaununum mínum í þessum mánuði, það þýðir enn minna nettó. Það er alveg sérstök upplifun að sjá það á fyrsta launaseðlinum sínum á nýjum vinnustað.
Nei, helvíti, er ég svona illa borguð hjá þeim?
Ég var bara fegin þegar ég rýndi í seðilinn sem sannaði að launin eru ágæt en skattkortinu hefur ekki verið komið til skila.


Se her på min albuge !

Enn á ný er ég einn í Frussu.

Steig á vigt á þriðjudag og er ekki frá því að ég hafi verið kominn persónulegt met.
Ákvað að drífa mig á miðvikudaginn í ræktina. Áskotnaðist nefnilega árskort í hina frómu stöð Nautilius, ( hljómar dálítið eins og feitilíus )
sem staðsett er í Sundlaug Kópavogs, fyrir áramót en hef ekki séð þörf á að nýta mér það.
Var náttúrulega að reyna setja met!.

Fór í gegnum stöðina með þjálfara sem setti upp fyrir mig prógram og kenndi mér tæknina við liftur, fettur og brettur.
Komst að því að ég er nagli að neðan, þ.e. frá mjöðmum og niður úr, en eins og 70 ára kona að ofan, bæði út frá kraftalegu sjónarmiði og skálastærð.
Var töluvert lúinn í höndum eftir fyrsta tíma en lét mig hafa það að fara og brenna á bretti í gærmorgunn. Það gekk vel.

Í dag hef ég hins vegar komist að því að hörðu sperrurnar mæta ekki af fullum krafti fyrr en 2 sólarhringjum eftir átök.
Gat ekki hugsað mér að fara lyfta þegar ég opnaði augun í morgunn enda framundan 20 mínútna púl við að koma sér fram úr rúminu.
Lét mig samt hafa það í hádeginu og lýður betur.

Og nú hugsa ég mjótt.


þriðjudagur, júní 24, 2003

Mannfræði.

Fyrst af öllu "Til hamingju Helga, með útskriftina".
Sveimhugi hefur komist að því að með BA ritgerð sinn hafi hann lokið námi sínu við HÍ.
Við Hammerar erum óskaplega glöð fyrir hans hönd og óskum honum að sjálfsögðu til hamingju með Bé Aið og bendum á eftirfarandi heimasíðu: Aulin og Auli


Nýr dagur
Enn finn ég til í bakinu en bakflæðið er skárra.

Sofnaði um 9 og vaknaði úthvíldur fyrir allar aldir.
Var kominn í vinnu 7:15, einn í húsinu og ótrúlegt hvað maður kemur í verk þegar síminn er hljóður.
Hellti mér á kaffi og hlustaði með andakt á Böðvar og Kristinn kveða um Amríska herinn.
Datt í hug að þið hefðuð gaman að því að fylgjast með.


mánudagur, júní 23, 2003

Insomnia versus floodreverseia

Þá er þessu stutta sumar/fæðingarorlofi lokið og ég mættur aftur í vinnu. Þrátt fyrir miklar væntingar til meiri bloggunar varð minna úr efndum en búast mátti við. Búinn að sofa vel í fríinu og þrátt fyrir taxicaphunckisma nú um helgina átti ég von á að koma endurnærður til baka í vinnu. en nei aldeilis ekki. Var að klæða mig í skó í gærkveldi og festist í bakinu. Lét mig hafa það þó að fara í kvikmyndahús og eftir að komið var til baka náði ég að sofna. Vaknaði um 1:30 út af verkjum og sofnaði ekki aftur fyrr en 6:45. Vekjarinn hringdi síðan stundvíslega kl 7:00. Ekki bætti úr skák að um 5 leitið hesthúsaði ég í mig einum lopakexpakka með smjöri ( ok, var svangur, kvölmatur var popp og kók í bíó ) og dagurinn í dag einkennist af uppþembu og magaverk og sybbu. Aldrei að gleyma sér við kexátu. Það fer illa með vélindað og beint í bakflæðið. Í stöttu máli svona líður mér:


(Any similarities between that picture
and persons living or dead is
purely coincidental.)



sunnudagur, júní 22, 2003

Ekki varð það úr að við kæmumst í útskriftarveisluna í gær. Óskum til hamingju engu að síður og munum bæta fyrir brot okkar hið fyrsta.

"Yoso! Hah! Yoso! Hah!" heyrist úr sjónvarpstækinu mínu. Ninjamynd í því. Amríska hollívúddmúsíkin er farin að hljóma eins og myndinni sé að ljúka. Þaldégnú. Þá er komið kvöld hjá mínum. Pissobussta. Kela ofurlítið. Lesa smá ef klukkan leyfir. Getur ekki bæði haldið og sleppt, ef maður velur ninjur getur maður átt á hættu að missa af Páli Vilhjálmssyni... Góða nótt. Mamma, má ég fá vatn? Farðasofa! Mamma, sængin er í klessu... Farðasofa! Mamma, ég get ekki sofnað... Góða nótt!

Í dag var góður sunnudagur. Frussa og Hammer mættu að smakka kaffið úr nýja gæludýrinu. Sátum úti í garði þar til sló um okkur svo við jaðraði að við forsköluðumst. Þá fórum við í göngutúr; Leifsgata - Skólavörðuholt - Lokastígur - Týsgata - Óðinstorg - Spítalastígur - Bergstaðastræti - Baldursgata - Nönnugata - Válastígur - Freyjugata - Haðarstígur - Nönnugata - Njarðargata - Freyjugata (með viðkomu í Einarsgarði) - Mímisvegur - Eiríksgata - Barónsstígur - Leifsgata. Nú veit ég hvar langafi minn og langamma áttu heima í Bergstaðastrætinu.

Þegar herrar hússins voru mættir heim til sín fór fjölskyldan á Klambratúnið, einn á hjóli, annar með flugustöng og sú þriðja með teppi og bók. Allir æfðu sig að kasta um stund og svo héldum við krókloppin heim í sumarblíðunni að elda kvöldmat.

Nú er sumsé dagur að kveldi kominn og við bjóðum góða nótt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com