<$BlogRSDUrl$>
Google

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Mikið sakna ég ykkar allra! 

Ég vil bæta við atburðaþulu Gweldunnar að systir okkar Langalöng hefur byggt óðalssetur í Grímsnesinu. Já, það eru sko ekki vettlingatökin á þeim bænum. Ég vil óska þeirri fjölskyldu til hamingju með þennan glæsilega bústað og allt lyngið í brekkunni, sem er líklega það fallegasta við bústaðinn að öðru ólöstuðu.

Snæfellsás hin síðari (og alls ekki síðri) gargaði jafn hraustlega á lækninn sem bólusetti hann og hann gerði á veislugesti í skírninni. Honum var illa við lækninn löngu áður en hann fékk sprautuna. Lækninum þótti hann engu að síður úrvalseintak.

Það fannst sundhedsplejersken líka, henni Hönnu Dúfu. Hanna var alsæl með hann en ekki eins hress með móðurina sem ekki leggur sig á daginn. Snæfellsásinn fær því aukasopa á kvöldinn héðan í frá svo móðirin fái frið fyrir honum á nóttunni og lengra á milli gjafa.

Það svínvirkaði.
Ég hef varla heyrt í pilti síðan.
Svaf sex tíma í nótt í einni bunu.
Ætli hann hafi ekki bara verið orðin dáldið svangur?
Reyndar þótti hann ekkert of léttur þó hann mætti þyngjast meir.
Ég veit hins vegar varla hvað ég á að gera af mér á meðan hann sefur á meltingunni.

Og ég neita því ekki að ég var smá skrítin inní mér þegar ég horfði á Stórkostlega Kærastann minn gefa honum pelann. Fann fyrir pínulitlum skilnaði.
Kærastinn var hins vegar ekkert smá hamingjusamur og sást utan á honum hvað hann varð mjúkur að innan.
Ormurinn var hins vegar sælastur, loksins varð hann almennilega saddur.

Sakna erilsins í fjölskyldunni.
Haldiði ekki að þið kæmuð í kaffi eða te til mín og dáðust að sofandi afkvæminu með mér ef við værum í sama landi?

Að lokum:
Það var mætt beint á húsfélagsfund af flugvellinum. Gömlu sósíalistarnir í húsinu mínu eru ekkert á því að leyfa okkur að slá saman íbúðunum nema hægt sé að skilja þær að aftur og að ég sé eigandi annarar. Tveir gasmælar, tveir rafmagnsmælar, tvær afborganir, tvö eldhús og tvö böð. Þau eru alveg í lagi með að þá höfum við tvö atkvæði í húsfélaginu og rétt á að sitja bæði í hússtjórn.
Okkur finnst þetta orðið pínulítið rugl.
Við ætlum því að skoða íbúð í nágrenni við tengdó í fyrramálið eða á laugardag.

Komiði sæl! 


Obbolítið blogg, fremur af vilja en mætti... langar ekki að láta síðu deyja drottni sínum!

Hef ekkert bloggað eftir vorferðalagið, en meðfylgjandi mynd tók ég á Green Island, sem er eyðieyja fyrir utan Antigua í Vestur-Indíum, í besta fríi sem ég hef farið í um ævina.

Spúsu Lava tókst að verða fertug og fá sitt langþráða heimilistæki. Þrátt fyrir óvænt fjölskyldudrama á þeim bæ var heillar helgar fertugsafmæli haldið með bravör í sumarbústaðnum sem sjaldan finnst...

Svo er Pinkillinn orðinn fimmtugur! Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar. Alltaf fækkar í hópi þeirra systkina sem eru undir hálfa hundraðinu. Við héldum upp á afmæli Pinkils með því að mæta með morgunverðarhlaðborðið undir öðrum handarkrikanum og pinkla undir hinum og syngja á tröppunum hjá honum árla dags. Sjálfsagt hefur mörgum grannanum verið skemmt við að vakna þannig á sunnudagsmorgni. Hápunktur dagsins var að sjálfsögðu þegar búið var að setja trommusettið upp í stofunni og Gweldan tók smá Tommy Lee á settið...

Tutluson, Snæfellsás hinn síðari, var skírður við mikla viðhöfn í júlílok. Þar svignuðu borð undan kræsingum Frussunga enda allt lagt undir til þess að vera pilti og móður hans til sóma og ganga í augun á dönsku fjölskyldunni. Ásinn tók virkan þátt í athöfninni og varð prestinum á orði að það væri augljóst að það tæki á að ganga í samfélag heilagra...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com