<$BlogRSDUrl$>
Google

föstudagur, júlí 22, 2005

Meiri endemis blíðan alltaf hreint 

Elsku vinir og ættingjar nær og fjær. Í dag varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fylgja Frussunni og Hammernum í nærliggjandi sveitarfélag og verða þar vitni að því er þau tóku við lyklavöldum að sveitabænum nýja. Frussan fékk meira að segja veglega lyklakippu að gjöf. Upp hefur komist þvottahúsinnrétting á tveimur dögum og íbúðin hrein og hugguleg þó enn vanti höldur á skápa (ó já æ já) og eitt og annað smálegt þurfi lagfæringar við. Ungir iðnaðarmenn unnu hörðum höndum að því að sníða til og setja upp sólbekki svo við urðum að skilja eftir ólæst. "Ekki gat ég læst mennina inni," sagði Frussan með lyklana. "Ekkert að því að læsa þá inni, öllu verra hefði verið að læsa þá úti," varð Hammernum að orði. "Þeim hefði ekki orðið mikið úr verki þá."
Svo fórum við í Bakarameistarann og keyptum með kaffinu í tilefni dagsins.
Tengdó eru búin að vera í heimsókn frá því sl. laugardag. Með í för er sextán ára systursonur Nusa míns, sem dreginn var af ömmu sinni út úr myrkviðum tölvuheima til þess að heimsækja móðurbróður sinn, nasistann og barnaþrælahaldarann uppi á Íslandi "sem lætur mann vaska upp og búa um sig". Hann þarf að rassgatast í bíl út og suður að skoða fossa og hveri, troðið í fýlugufuna á Laugarvatni og skellt ofan í blátt lón, fyrir utan endalausa göngutúra upp og niður Skólavörðuholtið. Svei mér ef hann hefir ekki lúmskt gaman af. Einkum og sér í lagi eftir að stuttbuxnaveðrið kom. Í kvöld buðum við gestunum á Tapasbarinn. Á móti okkur þar tók gamall og góður félagi frá hryllingstímabilinu mikla á Kaffi Reykjavík forðum daga. Sjö ár liðin rifjuðum við upp. Það er skemmst frá því að segja að aðra eins þjónustu man ég ekki eftir að hafa fengið á íslenskum veitingastað. Þar að auki var maturinn frábær. Ég held að þessi kvöldstund verði gestunum mínum eftirminnileg. Mr. Mad Hammerz lék á sínum alkunna tíu ára oddi alls og sló í gegn hjá þjónum, sem og öðrum viðstöddum. Síðan röltum við heim á leið í þessari líka endemis blíðu...

sunnudagur, júlí 17, 2005

Ég kom við í versluninni Amasónu í gærkvöldi, einu sinni sem oftar. Ánægjuleg búð, Amasón. Nema hvað. Eins og aðrir sem njóta umræddra verslunarhátta er ég í reikningi hjá búðinni og hef sérstaklega gaman af því að fá hin ýmsu tilboð sem sniðin eru að "þörfum" mínum. Þetta er mér eilíft ánægjuefni. Ég verð að afhjúpa hér þá staðreynd að ég er ekki bara með einn reikning, heldur tvo, hjá þessu dásamlega, netvædda mammonsmekka.
Því er nefnilega þannig farið að fyrir einhverjum árum keypti ég bækur hjá Amasónu, stofnaði reikning og gleymdi leyniorðinu mínu um leið. Samviskusamlega sendir Amasóna mér póst í vinnuna og lætur mig vita þegar viðkomandi rithöfundur, eða aðrir snjallir intellígensurithöfundar, gefa út bækur sem Amasóna heldur að ég hefði gaman af. Þetta er gáfumannareikningurinn minn.
Hinn reikningurinn, sá meira notaði og leyniorðsþekkti, er meiri áskorun fyrir þá Amasónara. Obbolítið erfiðara að finna út áhugasvið svona komplex konu, sem er greinilega fyrir soldið svona fyndið stöff en líka svona listasnobbí stöff og líka svona hinsegin stöff og svo sillí stöff og pólitískt stöff og Star Wars ofan í kaupið. Þannig að í gær stungu þeir upp á því að ég keypti Bucks Fizz...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com