<$BlogRSDUrl$>
Google

þriðjudagur, október 14, 2003

Gó Dósi pulsuskáld!

Vinurinn Erling laumaði ljóðum í rojalbúðingspakka, Dósi gæti t.d. límt þau utaná orapulsur... eða saxbauta?

Annars verð ég að segja að mér finnst ljúft að kominn sé staðgengill Lofts sáluga, þó lengi hafi ég álitið að það skarð yrði seint fyllt.

Mig langar að deila með mér upplifun dagsins: Tönnslubeinin voru klippt og skorin í dag í annað sinn. Að þessu sinni virkaði deyfingin ekki eins vel og síðast. Ég skal nú bara viðurkenna það hér og nú fyrir þeim sem ekki vissu að þegar ég var únglíngur í skóginum glímdi ég við þá sjúklegu hvöt að langa til þess að klippa í kinnarnar á mér... svona til þess að vita hvernig... Núna þarf ég ekki að velta vöngum yfir því lengur. Well, honeys, I tell you it's not what it's cracked up to be!

Ég skalf svo og nötraði þennan rúma klukkutíma sem ég gapti framan í lækninn að ég hélt ég myndi ekki komast þessi skref upp á Skólavörðuholtið og heim á eftir. Heima beið mín paradís sófans með verkjalyf og munnskol og kalda bakstra og vídeó. Sá The Hours og fannst hún nokkuð góð. Horfði svo á Master of Disguise með syninum, sem hló fyrir okkur bæði. Ekki hægt að kenna þeirri mynd um sprungnar varir.

Annars fórum við mæðgin á Dýrin í Hálsaskógi á sunnudaginn. Þröstur Leó slær öllum Mikkum refum við og vita menn og konur hversu ómælda og óblandna aðdáun ég hef á Bessa. Leikmynd Brians Pilkingtons er dásamleg og lýsingin fullkomnar hana. Það fór um mig ævintýraveraldardraumaleikhúsheimsskjálfti þegar tjöldin voru dregin frá sviðinu. Svo var stemningin engu lík og fullt af nýjum fyndnum mómentum í verkinu.

Um næstu helgi ætlum við á Línu.

Góða nótt, kæru blóðbönd.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com