<$BlogRSDUrl$>
Google

laugardagur, júlí 10, 2004

Daginn eftir partýið 

Rólegt laugardagskvöld í miðbæjarholunni. Karlpeningurinn á staðnum niðursokkinn í Kóngulóarmannstölvuleik sem prinsinum áskotnaðist í skiptum fyrir tónleika og bíóferð. Ég hef þessa áráttu að lofa upp í ermina á mér áður en ég veit hvað loforðin kosta... í þessu tilfelli var ég búin að lofa 50 cent tónleikum fyrir löngu síðan og gubbaði með látum þegar ég komst að því hvað miðarnir kosta; 5.500 krónur stykkið! Mér skilst að Metallicamiðarnir hafi verið enn dýrari - og hátt í nítjánþúsund manns létu taka sig í afturendann... og uppskáru súrefnisskort að launum... æ, það er misjafnt mannanna gaman. Sumir fara til annarra landa til þess að sjá gamla kommbakkkalla sem eiga ekki lengur fyrir salti í grautinn og nota síðustu kraftana til þess að gabba auðtrúa og tónleikasvelta bananalýðveldisþegna um víða veröld til að ferðast langar leiðir að sjá "alvöru band í aksjón". Svo kannski vantar tvo upp í gamla bandið. Einn kannski óverdósað of snemma og annar með hrörnunarsjúkdóm... eða gigt og hættur að geta plokkað. Engu að síður má dusta rykið af gömlu slögurunum, troða sér í endurgerðir af gömlu glimmerbúningunum, segja fokk ðatt sjitt nokkrum sinnum og skella sér til Póll-, Eistl- eða Íslands með "meidjör kommbakk". Og haugur af virðulegum viðskiptafræðingum og lögfræðingum með síhækkandi enni og víðáttubrjálaða magavöðva hrúgast á tónleika með unglingana sína í eftirdragi, fullvissandi þá um að þeir viti sko ekki hvað mússikk sé fyrr en þeir hafa heyrt og séð Bandið. "Já, Björgólfur minn, pabbi var nú dáldið væld hér á árum áður, sjáðu til... Kallinn á nú ýmislegt til ennþá í pokahorninu góði minn og þá er ég ekki að tala um Kúlusúkk væni minn... ó sei sei nei. Mæ men, Gestur Einar, kann sko sitt fag. Pabbi sko ekki alltaf verið með bindið fast í buxnastrengnum vinur og viskískegg á efrivörinni, ne-ei. Einu sinni hafði pabbi hár og kunni að hrista það!"

En ég ætlaði sumsé að hugleiða um afmælisveisluna miklu. Mikið vorum við heppin sem vorum þar. Fengum svo gott að borða. Ég held að einhver ætti að gera stuttmynd um þessa veislu eða semja ljóð. Þetta var nefnilega soldið spes; salurinn langur og dimmur og hátt til lofts, ekkert á veggjum eða yfirhöfuð til skrauts annað en súrrealísk ljósakróna, familían Hammerz, tuttuguogeitt stykki, í sínu fínasta pússi og besta skapi og stynjandi í kór - í orðsins fyllstu merkingu - yfir þessum dásamlega mat... Okkur þykir öllum svo gott að borða. Svo voru fallegar ræður og pabbi langflottastur og mamma búin að ondúlera sig og öll svo gasalega lekker. Við Nusi og Tutla og Danski-Pétur svikum obbolítið lit og röltum í bæinn eftir matinn þegar hinir fóru saman í kaffi á Langó. Náðum í skottið á kaffinu og fengum ís og ber og skoðuðum myndir með afmælisbarninu. Þetta var gott kvöld.



föstudagur, júlí 09, 2004

Hammerzmezza 

Óska okkur öllum til hamingju með daginn en þó sérstaklega sjálfu afmælisbarninu. Ja må han leva, hipp hipp húrraaaaaaaaa!!!

Er að huxa um að skella mér með körlunum á jazzhátíð á Skógum í fyrramálið.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Handagangur í öskjunni 

Horfði á Matrix III í gærkveldi þar til ég lognaðist út af. Kláraði hana í morgun. Þetta er nú ekki merkileg mynd; því nær sem þrettándinn nálgast þynnist hann óðum. Eins og skáldið sagði.

Fékk heimsókn í gær. Það var nett fjölskyldustemming í Þverholtinu þegar Unnur und Sigurjón von Skipasund und / oder Sóltún mættu ásamt Pinkli og frú. Sveinlaug og uppáhalds Ernir voru einnig á svæðinu svo og Davíð Ernir. Þulan lék við hvern sinn fingur og þótti gaman að öllu havaríinu.

Nú sefur þetta skott í vagni á svölum, full af ofnæmi eða kveflús. Dóttir mín er með hor. Merkilegt hvað það er nauðsynlegt að kunna að snýta sér. Fæst börn njóta þess að láta fikta með taubleyu í fésinu á sér í þeim tilgangi að ná hori sem lekur. Þula Katrín er engin undantekning.

Annars er knattspyrnuleikurinn eftir rúma 6 tíma, ég veit svei mér þá ekki hvað ég á af mér að gera þangað til. Er latur, væri til í að borða eitthvað og liggja svo fyrir á meltu.

Hlakka til föstudagsins, hef einnig verið að velta fyrir mér afmælisgjöf. Hef þó nokkrar hugmyndir sem þarfnast samhammrænnar útfærslu. Kannski ég hringi í einhvern til að fá fídbakk.

Þá er bara að vona að hann snúist ekki í útsýning...


This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com