<$BlogRSDUrl$>
Google

miðvikudagur, október 06, 2004

Neyðin kennir blankri konu að búa til péninga.  

Þeir sem hafa skoðað Skottuna, hafa kannski tekið eftir að á meðan ég hef verið heima með hósta, þá er allt að fara í hass í vinnunni hjá mér. Ég er alveg að krepera og langar alls ekki í vinnuna aftur.
Og gæti það svosem með réttu... blessaðir aularnir hafa bara ráðið mig til 4. október, þannig að í raun hef ég verið atvinnulaus síðan í fyrradag. Einhver óskaði mér til hamingju.

Vinnan mín er ekki alslæm. Börnin eru yndisleg. Blessaðir heilasköðuðu krakkarnir mínir sem eru nú svikin um að komast út úr bænum. Bara búin að hlakka til í ár.

Og allt líklega af því að sá gamli, sem ég vinn með, er að verða of háður rauðvíninu sínu.

Ég er því á fullu að athuga tækifæri til atvinnusköpunar. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp.
Því miður virðist ég betri í að hugsa en að gera. Ég er fæddur yfirmaður. Góð í að deila út verkefnum.
Sem betur fer hef ég fengið með mér fólk sem virðist vera betra en ég í að keyra hlutina í gegn. Það er því aldrei að vita nema ég geti skapað mér atvinnu ef mér tekst að koma þessum hugmyndum á lappirnar.

Eins er ég að komast að því að EU á fullt af péningum sem það vill endilega gefa til fólks sem nennir að sækja um þá. Fullt, fullt af péningum. Einmitt til svona verkefna eins og ég hef fengið hugmyndir að.
"Hmmm ... hvar get ég fundið fólk sem er gott í að skrifa umsóknir um styrki?" hugsar fæddi yfirmaðurinn. "Hmmm ... ætli ég læri ekki mest af því að skrifa þær umsóknir sjálf?"
Svo var kíkt á það.
Niðurstaða: "Þetta er brjáluð lesning. Það hljóta að vera einhverjir sem skrifa svona umsóknir fyrir einhverja hýru!!!!"
Spurningin er hvort ég er löt, eða bara raunsæ. Ég er góð í sumu en ekki í öðru. Mér hefur alltaf fundist heimska að gera eitthvað sjálf yfir tvær nætur sem ég get fengið einhvern annann til að gera á 10 mínútum.
Eins og til dæmis að skrifa auglýsingu í blaðið. Sú auglýsing er einmitt gott dæmi um það að ég er ekki auglýsingagerðarkona. Ég vandræðaðist með orð og hugmyndir í 2 nætur við tölvuna, þar til stórkostlegi kærastinn minn bennti mér á að hann hefur unnið við auglýsingagerð. Það tók hann einmitt 10 mínútur að skrifa auglýsinguna.

En án alls gríns er ég að kíkja töluvert á það sem heitir á enskunni "Creativity Development" og vill svo vel til að ég er með 4urra milljón króna mastersgráðu í. Gæti maður kannski gert eitthvað með þetta?

Being a business woman sure is hard work.

mánudagur, október 04, 2004

Ferðasaga frá París, part 1 

Jæja þá eru ég og Spúsa komin til baka eftir frækið og fjörugt ferðalag í Frans. Bæði tvö gengin upp í nára en ótrúlega ástfangin af borginni og okkur sjálfum. Stefnum á þessar slóðir aftur sem allra fyrst þar sem 4 dagar eru engan vegin nægjanlegur tími til þess að sjá allt sem manni langar til að sjá.
Tvo hluti ber að hafa í huga þegar hugað er að ferðalagi til Paríasar, ekki vera styttri tíma en að minnsta kosti viku og ekki fara á frægu staðina um helgar. Vorum ákveðin frá upphafi að slíta okkur sem mest frá hópnum, vera tvö, upplifa rómantíkina og borgina á okkar máta. Og boj ó boj, París eru engu lík.
-----------------------------
Úr dagbók Lava:
Fimmtudagur:


Jæja, loksins búinn að fjárfesta í skrifærum. Fann það strax á mér að annað hvort yrði ég að komast í bloggið eða kaupa mér dagbók. Fundum loksins bókabúð sem seldi annað en bækur og í uppveðrun yfir Latínuhverfinu varð ég að fjárfesta í teikniblokk í leiðinni (Eftiráathugasemd: Olbap teiknaði nú ekki nema eina mynd, gosbrunn, og var hún eins og við var að búast frekar þreytt). Gæti setið hér á kaffihúsunum og skrifað heilu dagana. Finnst það ekki undarlegt að svo margir listamenn hafa sótt innblástur til Parísar. Ó, maður verður nú barasta meir við tilhugsunina.........

..... Frakkar eru lítið fólk og í þynnra lagi. Ég fíla mig eins og Lava í Putalandi. Nei en án gríns, hér þarf ég virkilega að vara mig á að reka ekki olnboga í höfuð og hlustir innfæddra karla og kvenna. Undantekningarnar eru þó þessar löngu, þær ná mér í öxl. Og svo er ég viss um að Anorexia er franskt orð. Hvítar franskar konur eru að mínu mati ekkert sérstaklega andlitsfríðar en einhver sjarmör yfir þeim sem ég dáist af. Þær lituðu eru hins vegar fallegustu konur í heimi. Spúsu finnst margur sauðurinn til áhorfunar góður en helst til smáir þó. Hún er nú líka vön svo góðu. Held samt að við séum meira og minna upptekin af okkur sjálfum, fegurð og fönguleik, þegar kemur að því að spá í hitt kynið. Það er gaman að vera ástfangin í París......

...... Við komum á hótelið um 4 leytið í gær. Hópurinn ætlaði strax af stað í gönguferð og síðan átti hann pantað borð á veitingastað kl. 8. Þar sem við hjónin vorum lítt sofin ákváðum við að leggja okkur frekar fram að kvölmat en fylgja hópnum (Eftiráathugasemd: Ekki í seinasta skipti í þessu ferðalagi (sjá annars staðar). Þar sem ég var búin að vara einhverja í hópnum við að ég væri hér til að rækta ástarsamband mitt við konuna mína og við þar af leiðandi ekki verða dugleg í hóptúrunum bjóst fólk við því að við myndum koma okkur sjálf á staðinn. Við vorum sem sagt skilin eftir og eins og okkar er von og vísa sváfum við á okkar græna til að verða hálf níu. Drifum okkur samt á staðinn eftir að vera búin að koma okkur í samband við hópinn og fengum að vita að forrétti væri lokið. Staðurinn ber hið skemmtilega nafn "Forfeður vorir Gaulverjar" og minnir mjög á stemminguna í lokamynd í Ástríksbók. Það fílaði Steinríkur vel. Við náðum á staðinn áður en aðalréttur var borinn fram og skelltum okkur strax í forréttahlaðborð, innmatur að mestu leyti, pulsur og þess háttar. Spúsu fannst margt gott en ég var lítt hrifinn. Á hverju borði voru stórar körfur fullar af fersku grænmeti sem ætlað var með. Það var stórkostlegt. Öllu var síðan skolað niður með rauðvíni úr tunnum. Aðalréttur kom hins vegar á borðin eftir að hver og einn hafði pantað. Spúsa fékk nauta-entrecoté og ég fékk önd þar sem ekki var boðið upp á villisvín. Báðir skammtar brilliant og að hætti Steinríks dró ég Spúsu að landi. Öllu var síðan skolað niður með rauðvíni úr tunnum. Allar alvöru franskar máltíðir hafa ost á eftir aðalréttum og var ostabakkinn sem borinn var fram eitt af því girnilegasta sem ég hef séð og smakkað ( ekki voru allir sammála því). Öllu var síðan skolað niður með rauðvíni úr tunnum. Eftir osta voru bornir fram 4-5 tegundir af eftirréttum, Créme brule, súkkulaði múss, ísar og fl.. Öllu var síðan skolað niður með rauðvíni úr tunnum. Uhuummm hvað ég var saddur en þarna má segja ( fyrir ykkur frussunga ) að meltingarvandamál unirritaðs hafi byrjað. Það kemur sem sagt í ljós að franskur matur, eins og hann er nú góður, meltist verr. Það tók á í þessu ferðalagi að losa.........

....... Slepptum hópgöngutúr í morgunn en ætluðum sjálf á röltið. Fór þó öðru vísi en áætlað var, sváfum til hádegis (líkt okkur)en röltum okkur síðan inn í Latínuhverfið. Gæti átt heima þar. Þröngar götur með veitingahúsum og littlum búðum út um allt (Eftirá athugasemd: Þannig er París öll, litlar götur sem þverast af breiðum strætum). Þar standa vertarnir úti og reyna að lokka mann inn og götulistamenn ganga á milli og spila fyrir gesti. Húsin, fólkið og stemmingin öll í anda gömlu meistaranna. Á ekki nógu til sterk orð.........

.... þá erum við búin að fara í Notra Dame. Ótrúleg bygging sem tók hundrað ár að byggja. Það er ekki langur tími miðað við stærð og ótrúlegar höggmyndir sem skreyta kirkjuna. Þær telja örugglega nokkur þúsund. Maður verður agndofa bæði fyrir framan hana og ekki síður þegar gengið er inn. Kirkjan er uppbyggð af einhverskonar kapellum sem ganga í hring í kringum kirkjuskipið og altarið. Hver kapella tileinkuð sérstökum "seinti". Tók mynd af styttunni af Jóhönnu af Örk, stærstu ljósakrónu sem Spúsa hefur séð (....hva við tökum hana bara í handfarangri) af ótrúlegum gluggum (Eftirá athugasemd: Tókust ekki vel).......

...... Enduðum eftir miklar göngur í Luxemborgargarðinum sem er enn ein höllin með ofsalega flottum garði þar sem hægt er að setja niður og vera ástfanginn....

.... eftir stutta sturtu fórum við aftur á flakk og fundum ofsalega fínan veitingastað. Við völdum okkur af þriggja rétta matseðli (6-7 tegundir að velja um). Ég valdi mér í forrétt..........

Föstudagur:..... Vöknuðum snemma og vorum komin niður í morgunnmat fyrir allar aldir enda útsofin (loksins). Ákváðum að fara með hópnum sem ætlaði í gönguferð upp í 18da hverfi þar sem Sacre Cour kirkjan stendur uppi á hæsta punkti borgarinnar. Bæði það að við vildum fara á þennan stað og eins var gott að læra aðeins á Metróinn.....

.... og enn erum við kominn á æðislegan stað. Það var í þessu hverfi sem þeir gömlu bjuggu í áður en peningafólkið fór að kaupa upp eignirnar í hverfinu. Þótti fínt að vera innan um listamennina en þegar verðið hækkaði yfirgáfu listamennirnir hverfið og færðu sig niður í Latínuhverfið.....

...... Þegar komið er upp á hæðina og áður en komið er að kirkjunni er komið að litlu torgi þar sem málarar og teiknarar hafa komið upp trönum og bjóða fólki allskonar myndir. Við fengum einn þeirra til þess að teikna myndir af börnunum okkar eftir passamyndum. Það tókst bærilega í það minnsta erum við sátt og eigum skemmtilega minningu......

.....Sacre Cour kirkjan er ekki eins stór og Notre Dame en hafði ekki síðri áhrif á mig en Spúsa var ekki sammála mér. Þegar við komum inn í kirkjuna lentum við í miðri nunnumessu. Eins og við var að búast þá ákvað Lavinn að setjast framarlega og lentum náttúrulega í því að taka þátt í athöfninni eins og t.d. að standa upp á akveðnum tíma o.s.fr. Þetta var mögnuð upplifun. Það er ekki hverjum degi sem maður fer í kaþólska messu þar sem nunna spilar á langspil og Abbadísin og systurnar kyrja bænaköll. Ég varð svo uppveðraður að mér datt helst í hug að ganga alla leið og skrifta í leiðinni. Var dregin út áður en það gerðist.....

....ákváðum að skilja við hópinn þarna enda þurftum við að fara og ná í myndina af krökkunum. Spúsa hafði líka einsett sér að komast í einhverjar af þessum stórskemmtilegu búðum ....

..... er búin að finna einn óskemmtilegasta part af borginni. Var farinn að halda að þetta væri bara ekki til hér. Risavaxnar franskar Kringlur og Smáralindir uppfullar af merkjavöru. Fékk í hnén og kunnuleg innilokunarkennd gerði vart við sig. Gafst upp. Fann bar. Settist niður. Skrifa í bókina mína. Kona kemur til baka. Ég borga 800 kr. fyrir einn bjór. Segi og skrifa 800 kr. Og svo er verið að tala um að bjórinn sé dýr á Íslandi. Að við þurfum að lækka verðið svo við fáum fleiri túrista. Mér finnst nú engin vöntun á túristum í þessari borg. Mæli ekki með 9unda hverfi í París nema fyrir verslunarista.....
-----------------------

Læt ég hér staðar numið í bili en fyrir þá sem áhuga á framhaldi mun ég klára ferðasöguna á næstu vikum.

Annað var það ekki...

sunnudagur, október 03, 2004

Óskilamunir 

Sælinú, félagar. Þá er runninn upp enn einn mánuðurinn í heimi hér. Lítt um ný tíðindi, ó sei sei, nei.

Ég fór í haustferðalag með vinnufélögum í gær. Við fórum í langferðabifreið austur í Flóa og skoðuðum þar Knarraróssvita, sem mun vera með hæstu vitum á landinu, um 30 metra hár upp í ljós. Óðs manns æði að klifra upp glannalega stigana en viti menn; óðir menn reyndust þeir flestir. Ég hélt sönsum á jörðu niðri. Svo var farið á Stokkseyri. Fyrst skoðuðum við afrakstur föndurnámskeiðs Kvíabryggju á Stokkseyrarbryggju, þ.e. hnullungana hans Árna Joð, á meðan við nutum nærveru sjávar og mauluðum Sómasamlokur. Svo tók við allnokkuð súrreal upplifun inni í lista- og menningarverstöðinni á staðnum; nefnilega hljóð-og myndverkið "Brennið þið vitar", að loknum alllöngum formála einhvers fyrirsvarsmanns, sem ekki kynnti sig en gaf upp að hann væri ættaður úr Önundarfirðinum. Mikill Stokkseyringur í hjarta þó og stoltur af sínum Páli Ísólfssyni. Listaverkið fer fram í stórum sal. Hópnum er komið fyrir á svörtum plaststólum sem snúa að stórum vegg sem á er málað mikið verk eftir Elfar Guðna, hinn mikla málara heimamanna. Verkið er úfinn sjár, nokkuð ásjálegur, í bakgrunn, en aðalmyndin er risavaxið groddalegt Ísland, kúkabrúnt (þið munið litinn sem aldrei var kallaður annað en líkist ekki venjulegum kúkalit, nema þá helst hjá litlum börnum...). Á Íslandinu er mynd af Páli Ís og vitanum og Davíð Stefánssyni, en hann er hafður á Norðurlandi (sko, af því að Fagriskógur er á Árskógsströnd í Eyjafirði eins og allir vita). Svo er eitthvað meira skraut. Nema hvað, alls staðar á og við landið þar sem vitar eru staðsettir eru litlir hnappar. Svo er kveikt á kerti sem lítur út eins og Knarraróssvitinn og kertið sett á mitt gólf milli veggjarins og áhorfendanna. Ljósin slökkt í salnum. Ýtt á "plei" á geislaspilaranum og karlakórinn Þröstur hefur upp raust sína. Á meðan hinn ódauðlegi óður til íslenskra sjómanna dynur á manni kviknar á hverjum vitahnappnum á fætur öðrum á veggnum þar til allir vitar landsins loga og eftir því sem leikar æsast og lagið magnast verður ljósagangurinn á veggnum trylltari og ég að pissa í mig af hlátri yfir öllu saman. Gjörsamlega heilluð þó af senunni. Gat ekki annað en velt vöngum yfir því hvað Svíarnir okkar, skiptinemarnir sem voru með í för, væru að hugsa. Eftir þessa uppákomu fengum við að rölta um og skoða vinnustofurnar og galleríin í húsinu áður en við settumst að drykkju á Draugabarnum (sem innfæddir segja að sé óðum að verða vinsælasti skemmtistaðurinn á Suðurlandi). Stokkseyrarheimsóknin náði svo hámarki í Draugasetrinu sjálfu. Bú!! Segi ekki meir. Þaðan var svo haldið á Eyrarbakka og borðað í Rauða húsinu. Frábær matur og fyrirtaksþjónusta. Mæli með staðnum. Þegar slökkviliðsmenn héldu að þeir væru orðnir að karlakórnum Fóstbræðrum var þeim sópað út í rútu og skverað í bæinn. Þar tók við meira djamm en ég dreif mig heim í faðm feðganna. Var enda eldhress í morgun og fór í göngutúr með syninum, á Þjóðminjasafnið og í Norræna húsið. Frábær dagur í dag.

En, það sem ég ætlaði nú að skrifa í þessu bloggi var að eitthvað er um óskilamuni á Leifsgötunni eftir náttfatapartý síðustu helgar. Það sem ég hef að bjóða er:
- Gallabuxur á 9 ára strák.
- Grá húfa.
- Stuttermabolur merktur Nesjavöllum.
- Svartar neðanafklipptar sokkabuxur.
Ef einhverjir kannast við eigendurna má gjarnan láta mig vita.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com