<$BlogRSDUrl$>
Google

laugardagur, október 16, 2004

Smá tilfæringar 

Lenti í smávægilegum tilfæringum....

Þurfti að deleta síðasta bloggi frá Skottu, birti það aftur hér fyrir neðan.

Afsakið.



ókei, nóg af heilræðum ...  

... aftur í diskóið. Tékka á Gunther, af þið eruð ekki búin að því. Ég setti þessa krækju á skottuna og fólk er farið að þakka mér fyrir. Vídeóið er sérstaklega vinsælt. Ég mæli svo alveg grínlaust með Annie. Ég hef auðvitað ekki getað nálgast diskinn hérna og nota örugglega sama trikk og ég notaði til að fá Blond Redhead diskana í Guf. Bara leggja inn fyrirspurn nógu oft, þá panntar kerfið diskinn inn. Annars er maðurinn minn að koma heim í fyrramálið. Verkefni kvöldsins er því að breyta mér út hellisbúa í gyðju. Raka lappir með sláttuvél.

Trúi því þegar ég sé það gerast 

88 sent komin í kassann. Nú bíð ég spenntur eftir tékkanum frá Google frænda.

Frussa ehf. 

Líkt og glöggir lesendur Frussunnar hafa tekið eftir er nú hægt að gúggla beint af síðunni. Einnig eru farnar að birtast auglýsingar á síðunni. Ég er ekki alveg viss um hvort þetta virki eitthvað, en ef svo ólíklega vildi til að ég fengi ávísanir frá Google inn um lúguna mína þá mun andvirði þeirra renna beint í Seyrusjóð Móakots.

Nokkur heilræði um hægðateppu. 

Hvað er hægðatregða?
Hægðatregða er eins og liggur í orðann hljóman tregar hægðir, harðar hægðir sem erfitt er að losa sig við eða koma með margra daga millibili. Því fylgir oft sársauki við endaþarmsopið þegar viðkomandi hefur hægðir, en sprungur hafa oft myndast í kringum endaþarmsopið. Í flestum tilfellum er hægðatregða ekki hættuleg en það er hvimleitt að vera með hægðatregðu og oft er hægt að mýkja hægðirnar á einfaldan hátt. Hægðatregða getur þó verið merki um annan undirliggjandi sjúkdóm og ef ekkert gengur að mýkja hægðirnar með einföldum aðgerðum er ástæða til að leita til læknis og láta athuga málið frekar. Komi blæðing frá endaþarmi ætti að láta lækni rannsaka það.

Hver eru einkennin?
Sársauki og blæðing við endaþarmsop þegar viðkomandi hefur hægðir.
Sú tilfinning að vera enn mál eftir hægðalosun.
Þensla á kvið.

Hver er orsökin?
Of lítil vökvaneysla, þ.e. drukkið of lítið. Neysla trefjasnauðrar fæðu. Trefjar eru ómeltanlegur hluti fæðunnar og haldast því í þörmunum og draga til sín vökva sem gerir hægðirnar mýkri. Hægari efnaskipti (eins og verða t.d. þegar skjaldkirtillinn starfar of hægt.) Hreyfingarleysi
Ristilkrampar.
Bakverkir.
Langvinnur nýrnasjúkdómur. Krabbamein í ristli eða endaþarmi.

Hvenær er hætta á ferð?
Ef þú notar ákveðin lyf sem valda hægðatregðu. Dæmi um lyf sem valda henni eru atropin, kalsíumblokkarar, betablokkarar, þrísýklísk þunglyndislyf, morfínlík efni, járn og lyf sem binda magasýrur. Þú finnur fyrir almennri vanlíðan.

Hvað er best að borða til að forðast hægðatregðu?
Trefjaríka fæðu eins og hveitiklíð, gróft korn, ávexti og grænmeti.
Drekka mikinn vökva, 8-10 glös af vatni á dag.
Heitir drykkir eins og te, kaffi eða heitt vatn geta örvað hægðirnar. Gott er að drekka sveskju- eða plómusafa.
Forðast fín brauð, kökur og sykur.

Ráðleggingar
Hreyfðu þig reglulega því hreyfing hefur góð áhrif á starfsemi þarmanna og dregur almennt úr streitu. Vendu þig á reglulegar hægðir. Best er að hafa hægðir fyrsta klukkutímann eftir morgunmat. Taktu það rólega og sittu a.m.k. í 10 mínútur hvort sem þú hefur hægðir eður ei. Það getur hjálpað að halda dagbók til að reyna að finna út hvað það er sem veldur einkennunum.

Hvaða afleiðingar getur langvarandi hægðatregða haft?
Gyllinæð.
Svo mikil notkun hægðalyfja að viðkomandi verði háður þeim.
Kviðslit vegna of mikils þrýstings við hægðir.
Leg- eða endaþarmssig.

Framtíðarhorfur
Yfirleitt er hægt að lækna ástandið með aukinni hreyfingu, breyttu mataræði og mikilli neyslu vökva. Hægt er að fá einhver hægðalyf án lyfseðils í apóteki og er um að gera að spyrjast fyrir um það í apótekinu, sérstaklega þá lyf sem mýkja hægðirnar. Ef ástandið lagast ekki, einstaklingurinn léttist, fær kviðverki, ef kemur blóð eða slím með hægðum þá þarf að leita læknis. Þá er nauðsynlegt að athuga hvort hugsanlega sé einhver sjúkdómur sem orsakar ástandið og/eða gefa virkari hægðalyf.

Næst heilræði um "Gæði gagna á Landspítala Háskólasjukrahúsi"

föstudagur, október 15, 2004

Nokkur heilræði um námstækni  

Nokkur heilræði um námstækni

Til að ná árangri er algjört lykilatriði að;

- mæta vel í tíma

- fylgjast vel með

- glósa

- fara vel yfir námsefnið

Það er staðreynd að endurtekning og upprifjun er nauðsynleg við að tileinka sér nýja þekkingu. Ein af mörgum góðum lestraraðferðum byggir á þessari staðreynd. Hún er í fjórum megin þrepum;

Skoða – kennslustund – bökkun – upprifjun

1. Skoða – áður en farið er í tíma er námsefni hans skoðað samkvæmt kennsluáætlun eða fyrirmælum kennara. Þá er litið yfir viðkomandi kafla, fyrirsagnir lesnar og e.t.v. fyrstu setningar í hverjum undirkafla. Þannig fæst hugmynd um hvaða námsefni verði til umfjöllunar.
2. Kennslustund – vera dugleg/ur að fylgjast með, glósa niður aðalatriði, gott að koma sér upp stikkorðum til að flýta fyrir. Mikilvægt er að vera virk/ur og með athygli við það sem fram fer.
3. Bökkun – líta yfir glósur í lok dags. Lesa svo vel yfir námsefnið eftir áherslum kennarans í tímanum. Huga að virkni á meðan lesið er t.d. með því að bæta inn í glósurnar.
4. Upprifjun – skoða vikulega / mánaðarlega yfir glósur og jafnvel fyrirsagnir og rifja þannig upp. Spyrja sjálfan sig spurninga úr námsefninu og svara þeim.

Jákvætt viðhorf

Í öllu námi er einn mikilvægur þáttur sem gjarnan gleymist en það er trú á sjálfan sig. Það er mjög mikilvægt að tileinka sér jákvæða hugsun og trúa því í raun að manni takist að ná þeim námsmarkmiðum sem maður hefur sett sér. Hugsun sigurverans þarf að vera til staðar – ég get það sem ég vil.

Stuðningur námsráðgafa

Ef nemandi vill frekari stuðning við að bæta vinnubrögð í námi getur hann leitað til námsráðgjafa sem aðstoðar hann við að skipuleggja námið og bæta námstækni sína s.s. tímastjórnun, glósugerð, lestraraðferðir og fleira.

Næst heiræði um hægðatregðu. Somebody stop me.........

Annað var það ekki .......


fimmtudagur, október 14, 2004

Fleiri heilræði ( viðhald heimilis ) 

Uppsetning léttra milliveggja

Áður en byrjað er að setja upp veggjagrindurnar þarf að hreinsa gólfin vel. Merkja skal fyrir öllum veggjum á gólfin og hvar dyr eiga að koma. Gott er að nota krítarlínu við staðsetningu veggja. Gólfleiðari er festur niður með skrúfum með u.þ.b. 60 sm millibili. Til að staðsetja leiðara í lofti er gott að nota hallamál eða lóðalínu upp frá gólfleiðara og stýfa hann fastan meðan festingum er komið fyrir.

Leiðari í lofti er festur á sama hátt og gólfleiðarar. Uppistöður eru settar upp með 60 sm millibili, mælt frá miðri uppistöðu á miðja næstu. Gott er að hafa uppistöður ívið lengri (u.þ.b. 2-3 mm) en stíft mál á milli leiðara. Ef hengja á þunga hluti á veggina, t.d. skápa eða vaska, þarf að setja upp lausholt (þverspýtu milli uppistaða) í réttri hæð fyrir festingar. Hæðarstykki við hurðarop skulu vera eins og aðrar uppistöður á milli leiðara. Gatmál milli hæðastykkja skal vera 7 sm breiðara en uppgefin hurðarbreidd og hæðarmál 205-206 sm.

Algengast er að nota 12 mm spónaplötur eða 13 mm gipsplötu þegar klæða á milliveggi. Ef notaðar eru spónaplötur þá skal nota rakaþolnar plötur í eldhúsi, baðherbergjum og þvottahúsi. Í milliveggi milli svefnherbergja er gott að setja filtdúk undir leiðara við gólf og loft og þéttull í vegginn til að minnka hljóðleka á milli herbergja. Algengustu efnisstærðir á grindarefni eru: 34x95, 45x95, 34x70 og 45x70.

Góð ráð varðandi uppsláttinn
Í ýmsum tilvikum er æskilegt að einangra byggingarhluta frá jörðu þegar draga þarf úr varmaflæði að eða frá honum. Einangrunarþörfin getur jafnt verið í nýbyggingum sem og á eldra húsnæði eða þegar einangra á lagnir í jörðu. Eiginleikar íslensku steinullarinnar henta vel þar sem einangrun liggur að jörðu, t.d. undir gólfplötu eða utan á kjallara- og grunnveggjum.
Einangrun sökkul- og útveggja að utan kemur í veg fyrir að kuldabrú myndist þegar gólfplata er steypt út í útvegg. Við einangrun sökkulveggja þarf að einangra niður fyrir frostdýpt þar sem því verður við komið. Þann hluta einangrunar sem stendur upp úr jörðu og um 15sm niður fyrir jarðvegsyfirborð ætti að múra með trefjamúr eða klæða á annan hátt. Utan við sökkuleinangrun er sett drenmöl og nægir að lagið sé um 20sm. Nauðsynlegt er að ganga frá dreni umhverfis húsið.

Einangrun undir steypta plötu skal velja eftir því hvert heildarálagið verður. Fyrir íbúðarhús og léttan iðnað nægir að nota grunnplötu. Við viss skilyrði, háð aðstæðum og efnisvali, er nauðsynlegt að ganga frá rakavarnarlagi í gólfi.
Ætíð ætti að einangra undir alla plötu íbúðarhúsnæðis og minnst einn metra niður með sökklum (mælt frá endanlegu jarðvegsyfirborði). Ef sökkull stendur hátt úr jörðu þarf að taka tillit til þessa við ákvörðun einangrunarþykktar.

Glugga- og hurðagæði
Í apríl árið 1996 varð breyting á byggingareglugerð sem ætti að koma nýjum húsnæðiseigendum til góða. Breytingin er sú að í grein 3.4.9.1 stendur m.a: "Byggingareining (húseining, húshluti, byggingarhluti,) sem framleidd er í verksmiðju eða á verkstæði og ætlað er ákveðið sérhæft hlutverk í byggingu skal ávallt bera vottun skv. ávæðum í gr. 7.03."
Þetta þýðir að framleiðendur glugga og hurða skulu staðfesta fyrir kaupanda með vottorði frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins að gluggarnir sem þeir eru að selja, uppfylli tilskyldar kröfur. Þetta er gæðaeftirlit sem tryggir að óvönduð framleiðsla á gluggum og hurðum heyri sögunni til.

Þar til reglugerðinni var breytt gat hver sem er smíðað glugga og hurðir og selt í byggingar án þess að nokkur trygging væri fyrir því að gluggarnir stæðust íslenskt veðurfar og þess vegna búa margir húsnæðiseigendur yfir biturri reynslu af óþéttum og illa smíðuðum gluggum sem hafa valdið þeim tjóni og leiðindum.
Húsbyggjendur sem eru að leita tilboða í glugga og hurðir ættu því að kanna strax í upphafi hvort framleiðendur geti framvísað slíku vottorði því annars er hætta á að kaupandi sitji uppi með glugga og hurðir sem ekki má setja í bygginguna. Hinir sem eru að kaupa húsnæði sem byggð eru eftir apríl 1996 ættu að kynna sér hvort slík vottorð liggi fyrir hjá byggingafulltrúa og geta með því verið vissir um hvort þessir hlutar byggingar séu í góðu lagi.

Val á innihurðum
Við val, kaup og uppsetningu á innihurðum getur þú leitað ráða hjá fagmönnum í hurðadeild Hólf & Gólf. Þú þarft þó að hafa nokkur mikilvæg atriði á reiðum höndum áður en þú kemur til okkar. Þú þarft að vita nákvæmlega veggþykktina og mæla breidd og hæð á hurðaropinu. Einnig þarftu að ákveða hvort um vinstri eða hægri hurðaropnun er að ræða. Þá er miðað við að staðið sé fyrir innan hurðina og horft á hvorum megin lömin sé. Við val á útliti hurðanna er ágætt að taka mið af því að nota aðeins eina viðartegund í íbúðinni/húsinu og hafa þá innréttingar, fataskápa, parketgólf og hurðirnar eins. BYKO býður einnig eldvarnarhurðir og hurðir fyrir gluggaísetningar.

Snjóbræðsla
Þeir staðir sem helst koma til greina fyrir snjóbræðslukerfi eru gangstéttar og mikið hallandi götur, inngangar og bílastæði verslunarhúsa, athafnasvæði fyrirtækja, inngangar sjúkrahúsa og æfingastöðva fyrir fatlaða, innkeyrslur, bílastæði og stéttir við íbúðarhús, íþróttavellir, barnaleikvellir, blómabeð og gróðurhús og steyptar tröppur.
Hafa ber í huga að aðeins pípulagningamenn mega annast lagningu og tengingu snjóbræðslukerfa. Snjóbræðsla léttir snjómokstur og eykur öryggi gangandi vegfarenda. Hægt er að tengja snjóbræðslukerfi við hitaveitugrind löngu eftir að það hefur verið lagt en þá þarf að fjarlægja vatn úr rörum til að hindra frostskemmdir.
Til eru tvær gerðir snjóbræðslukerfa. Annað kerfið er opið kerfi sem tengist beint inn á affall ofna frá húsi. Þumalputtareglan um mottustærðina er sú að 100 m2 hús getur annað 25 m2 snjóbræðslumottu. Ef sjóbræðslumottan er stærri en húsið ræður við er settur innspítingarloki.
Hitt kerfið er lokað kerfi og er það notað þegar snjóbræðslukerfið er orðið mun stærra en húsið getur annað eða þar sem lokast getur fyrir heita vatnið af ófyrirsjáanlegum orsökum. Þetta kerfi þarf frostlaug, forhitara, dælu og hitaskynjara.

Flísalögn
Efnisval bæði á flísum og límtegundum er mjög mikilvægur þáttur í flísalagningu. Staðhættir eru mismunandi með tilliti til ágangs og vatnsálags. Veggflísar eru t.d. almennt ekki notaðar á gólf, og flísar eru mismunandi mikið vatnsdrægar.
Þegar flísaleggja á baðherbergi þarf að hafa í huga úr hverju gólf og veggir eru gerðir. Til að mynda er ekki sama hvort um er að ræða gips, tré eða steinsteypu. Einnig þarf að skipta baðherberginu í svæði með tilliti til vatnsálags og reikna út stærð hvers svæðis fyrir sig. Lím og þéttiefni eru síðan valin með tilliti til þess.
Svæðin skiptast í blautt svæði og rakt svæði. Blautt svæði þarf að vatnsverja sérstaklega með vatnsþéttri filmu en rakt svæði er rakavarið.
Útiflísar þurfa að vera mjög sterkar og frostþolnar. Það sem helst ákvarðar frostheldni er vatnsdrægni, en hún má ekki vera meiri en 0,1 til 0,5% við íslenskar aðstæður vegna sífelldrar víxlverkunar frosts og þíðu. Sú tegund flísa sem mest er notast við nefnist Porcelain Stoneware (granít líki- gegnheilar flísar). Slíkar flísar eru bæði firnasterkar og frostheldnin er sú besta sem þekkist í dag.

Næst heilræði um námstækni.

Annað var það ekki........

miðvikudagur, október 13, 2004

Kvef eða flensa?

Ein algengasta orsök veikindafjarvista frá vinnu eða skóla er kvef – venjulegt kvef.
Kvef er vegna vírussýkingar og er svo kallaður Rhino-vírus algengastur. Kvefvírusinn er lífsseigur. Hann getur lifað lengi utan líkamans, s.s. á hurðarhúnum, peningum og ýmsum áhöldum. Í kjölfar kvefsýkingar myndast að öllu jöfnu ævilangt ónæmi fyrir viðkomandi veiru, en gallinn er bara sá að afbrigði kvefveirunnar eru svo mörg að ævin endist ekki til þess að mynda ónæmi gegn öllum. Og það er líka ástæðan fyrir því að ekki hefur enn verið hægt að framleiða bóluefni sem virkar á allar kvefveirur.

Við fáum venjulegt kvef kannski einu sinni til tvisvar á ári, börn miklu oftar, og eru vor og haust algengustu tímabilin. Kvef berst mjög auðveldlega á milli manna og líður stuttur tími frá sýkingu og þar til kvef gerir vart við sig.

Einkenni kvefs ættu allir að þekkja: Algengast er að það byrji hægt með óþægindum, kláða og særindum í hálsi. Hnerri, nefrennsli og jafnvel rennvot augu koma fljótlega og ef einhver hitahækkun er, þá er hún væg. Venjulegt kvef gengur yfir á fáeinum dögum og oftast innan viku.
Ef einkenni vara lengur en viku og fylgikvillar eins og eyrnaverkur, langvarandi hósti, verkur í andliti eða enni koma fram getur það verið merki um að bakteríusýking hafi komið í kjölfar kvefsins. Þá þarf að fara til læknis og fá viðeigandi meðferð.

Meðferð við kvefi miðast við að draga úr einkennum og vanlíðan en bein lækning er ekki til. Mikilvægt er að sjá til þess að hvílast vel og draga úr álagi meðan kvefið líður hjá. Gömul húsráð eru í góðu gildi eins og að drekka heitt sítrónuvatn eða hunangsmjólk, hálstöflur og hóstasaft getur dregið úr ertingu í hálsi. Ýmis náttúrulyf eru líka til sem sum hver geta vafalaust eitthvað bætt líðan, en ekkert virðist þó enn hafa sannað sig vísindalega í að stytta gang kvefpestar. Og svo er að setja á sig uppáhalds hálsklútinn og fullt, fullt af húðvænum snýtipappír!
Sjaldnast er ástæða til að vera heima frá vinnu eða skóla nema einkenni séu því meiri eða að eðli vinnunnar krefjist þess.

Forvarnir eru aðallega fólgnar í almennu hreinlæti og heilbrigðum lífsstíl (hafið þið heyrt þennan áður?)
Handþvottur er hreinlætisaðgerð sem skilar sér og á hann þá bæði við þann sem er kvefaður (smitberinn) og þann sem vill forðast smit. Sjálfsögð kurteisi er að halda olnbogabót að vitum við hnerra og hósta því kvefveiran berst auðveldlega í andrúmslofti manna á milli.
Streita og mikið álag, bæði andlegt og líkamlegt, getur dregið úr mótsöðuafli líkamans og því getur fylgt aukið næmi fyrir kvefi. Líkamsþjálfun í hæfilegu magni og hollt fæði bætir ónæmiskerfið.

Inflúensa hins vegar hellist yfirleitt snöggt yfir mann – eins og þruma úr heiðskýru lofti. Hitinn hækkar oft í 39-40 gráður, hrollur, beinverkir og höfuðverkur og sár, djúpur hósti einkenna inflúensuna sem er landlæg á hverju ári, oftast um vetrartímann. Veikindi við flensu vara lengur en við venjulegt kvef og eru mun erfiðari. Gera má ráð fyrir að hún vari í 5-8 daga. Slappleiki og hósti getur þó varað lengur sem og alvarlegri fylgikvillar eins og lungnabólga.

Meðferð inflúensu miðast að því að draga úr einkennum og vanlíðan með hitalækkandi lyfjum (t.d. Parartabs), hóstastillandi og öðrum almennum ráðum til að minnka vanlíðan.
Einnig hafa nýlega komið lyf á markaðinn sem geta stytt flensuna um sólarhring ef þau eru tekin strax í upphafi veikinda, en þau eru einungis hægt að fá með ávísun læknis

Forvarnir
Árleg bólusetning er besta vörnin gegn inflúensu. Hún er þó ekki alveg örugg, en líkur eru minni á alvarlegum fylgikvillum hjá þeim sem veikjast þrátt fyrir að hafa verið bólusettir.En því miður virkar inflúensubólusetning ekki gegn öðrum umgangskvillum eins og kvefi eða hálsbólgu! Stöðugar breytingar á inlúensuveirunni gerir það að verkum að endurbólusetningar með nýju bóluefni er þörf á hverju ári til að vörnin sé sem best.
Aðrar forvarnir gegn inflúensusýkingu eru þær sömu og varðandi kvefið: almennt hreinlæti og heilbrigður lífsstíll.

Góðar stundir!

mánudagur, október 11, 2004

Þvottavél, 

Hef verið beðinn um að athuga hvort einhverjum vanti þvottavél. Ef svo er þá veit ég um eina slíka sem fæst fyrir slikk eða gefins.

Annað var það ekki.....

sunnudagur, október 10, 2004

Stórafmælisblogg per requesto...vus 

Já, þá er enn einn Hammerzinn kominn á fertugsaldurinn. Strangt til tekið ekki fyrr en á miðvikudaginn, en við erum búin að vígja dömuna inn. Það var gert við miklar dýrðir á laugardagskvöldið á Nösu, efri hæð. Afmælisbarnið var hið glæsilegasta og bar árafjöldann með reisn. Skellti sér á gólfið með pakkana sína og flögraði um með bland í poka og stráði meðal gesta sinna. Sleikibrjóstsykurinn fór vel í gestina og allir voru glaðir og giddí. Hápunktur kvöldsins að mínu mati var þegar gestgjafinn tók sprinkler fyrir aðdáendur sína og öskraði á boxkennara vísu: "Er lím á gólfinu?!!" Frábært og vel lukkað kvöld og haugur af fólki á öllum aldri streymdi þarna inn og út til að gleðjast með henni. Uppúr miðnætti fór afmælisbarnið með vinkonum sínum á einhvern hipphoppbar sem ég kann ekki að nefna (enda u.þ.b. áratug eldri og ræð illa við sprinklerinn...) og flestir gestir fóru til síns heima - geri ég ráð fyrir. Ég og Sigga mín fórum heim að vitja sona okkar, þar sem annar passaði hinn. Þar var allt í góðum gír.

Í dag fórum við hjón á málverkasýningu. Síðasti dagurinn í sýningu Þorra Hrings og við Nusi minn vorum búin að reyna að finna sameiginlega stund til þess að fara alveg frá því sýningin hófst. Ég var gjörsamlega yfir mig hrifin. Ekki veit ég hvernig best er að lýsa verkunum hans en þau eru ekki eins og neitt sem ég hef áður séð. Ímyndið ykkur íslenska náttúru þegar hún skartar sínu fegursta - þegar birtan er fullkomin og litirnir eins og í lygasögu - og maður mundar myndavélina sína en hugsar um leið; það þýðir ekkert að reyna að ná þessu á filmu, það verður aldrei eins. Svo kemur maður með olíu og striga og nær þessu. Óður til þessa ótrúlega lands. Aðaldalurinn hans Þorra á árinu 2004. Allt það fegursta sem hann hefur upp á að bjóða. Alvöru töffaraskapur í samanburði við hina hefðbundnu íslensku ælu á stól eða rollur á hól. Svo fórum við á aðra sýningu þar sem voru ferköntuð tilbrigði við liti og áferð - listaspíruinnsetning sem varð eitthvað svo hjákátlega tilgerðarleg og eins. Vorum fljót þaðan út. Sýningin hans Þorra er eitthvað það ferskasta sem ég hef séð í íslenskri myndlist í óratíma. Er komin með ógeð á innsetningum. Reyndar er ég samt ansi hrifin af nælonsokka- og lakkrískonfektssýningu gjörningaklúbbsins.

Góða nótt elskurnar og gangið á guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com