<$BlogRSDUrl$>
Google

laugardagur, janúar 08, 2005

Af hori 

Á að vera hunkast á steurnum en gafst upp um ellefu leitið í kvöld. Sikkasadog fílingur. Kom heim og skreið í rúmið hnerrandi eins og angóruköttur hefði vafið sér utan um nefið á mér. Búinn að sofa í 10 mínútna lotum síðan. Vakna upp ýmist vegna hnerra eða þá að mér liggur við köfnun sökum yfirþyrmandi hormyndunar. Finnst frekar óþægileg þessi tilfinning að kafna úr hori. Minnir dálítið á manninn sem dó úr dönsku hérna um árið. En nú er annar sjúklingur kominn á línuna þannig að ég læt staðar numið í bili.

Annað var það ekki......

föstudagur, janúar 07, 2005

04:55 - 05:30 

Nótt, og ég vakandi.

Ekkert til að éta. Get ekki sofið. Íllt í andlitinu.

Ætli ég sé ekki bara með svona fylltar ennisholur?

Ég er allavega búin að gefast upp, einu sinni enn, fyrir kvefpestinni sem hrjáir mig. Mér var batnað, svo flaug ég til Köben í brjáluðum stormi.
Úff, hvað var kalt.
Ekki síst á leiðinni frá bílastæði Avis og inn í flugstöðina.
Á leiðinni út á völl sáum við fullt af bílum sem höfðu fokið út í skurð. Ég ók á fjörtíu á meðan atvinnubílstjórar brunuðu framhjá mér. Glöð í hjarta yfir breikkaðri Reykjanesbraut. Ég dauðvorkenndi útlendingunum sem burðuðust með töskurnar sínar upp úr skurði með leigara í botninum. Sá hafði snarlega pantað annan bíl fyrir þau.

Stórkostlegi Kærastinn minn vildi fara í Lónið á leiðinni út á völl. Ég ók áleiðis til Grindavíkur á tuttugu. Við náðum út að eyðilegu bílastæði Bláa Lónsins, þar sem ég gerði mig líklega til að sitja í bílnum á meðan SK færi inn.
SK: "Hva, ætlarðu ekki að koma inn með mér?"
Tutla: "Uh, nei, ég verð bara hér á meðan þú tékkar á því hvort sé opið."
SK (sár í framan): "Kemurðu ekki einu sinni inn og færð þér pulsu?"
Tutla stígur út úr bílnum (eitt í einu svo hurðirnar fjúki ekki af), og þrammar öskuíll upp stíginn að baðhúsinu, þar til hún nær ekki lengra vegna mótvinds. Á sama tíma rennur fólksbíll í hlað, og út stíga þrír illa búnir Íslendingar og ein stúlka sem var eins og óttablandið spurningamerki í framan.
Tutla heyrir karlmanninn í hópnum segja stoltur, með sterkum íslenskum hreim: "Only Icelanders will go swimming in weather like this!".
Tutla (öskuill, við Stórkostlegan Kærasta): "Nú stoppar festin. Þetta er fáránlegt. Ef þú syndir núna fýkur höfuðið á þér af."
Inn í bíl. Sami íslenski karlmaður segir vandræðalega: "Oh, the jeep is going ... "
SK: "Ertu ekki til í að vera hér í tvær mínútur, mér er svo hræðilega íllt í bakinu og er svo flökurt af að liggja í bílnum."
Tutla: "Nei, hér ætla ég sko ekki að sitja föst og missa af flugi. Þú ælir bara."

Hann fattaði þetta þegar við tókum bensín í Keflavík. Veðrið var kolbrjálað. Hann kom úrvinda inn í bílinn aftur. Framhjá okkur fauk íslenskur iðnaðarmaður, á stuttermabol, með pulsu í hendinni.

Stórkostlega Kærastanum mínum finnst minningin skemmtileg og kallar þetta ekta íslenska upplifun. Ég er mest gáttuð yfir hvað bullið gekk langt áður en gekk fram af mér. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa tekið bílprófið mitt í febrúar.

Við hristumst svo til Kaupmannahafnar. Flugið var frekar erfitt, sérstaklega fyrir þann bakveika, þar sem við þurftum að sitja ansi lengi með beltin spennt. Ég var á nippinu með að verða hrædd, í fyrsta skipti í flugvél.

Svo hér sit ég, með aðra uppáhellingu af tei, og Risa Ópal, og blogga um miðja nótt. Get ekki sofið vegna hors. Grænt ópal, grænt hor.
Kenni Bláalónsævintýrinu um horið og finnst ég vera fáviti. Ég er orðin of mikið "par". Tek bakverk mannsins míns fram yfir heilbrigða skynsemi. Vantar bara að ég hiti inniskóna hans í ofninum, til að hafa tilbúna þegar hann kemur heim úr vinnu.

Þetta jafnar sig. Ég hef nógan tíma á árinu til að vera ég sjálf. Tappinn hefur nebblega fengið stórmynd í Kanada. Hann er ofsaglaður. Þá er ég ofsaglöð.

Þetta voru góðu fréttirnar, segi ykkur sögur af sportbílnum seinna.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Áramótaávarp Sveimhuga 

Þegar áramótin skullu á rigndi yfir mig talsvert af áramótakveðjum í sms formi. Mér gafst ekki tækifæri til að svara þeim öllum en hef ákveðið að þakka öllum fyrir árið á þessum vettvangi og óska mönnum að sama skapi góðs gengis á nýju ári.

Árið 2004 var árið sem ég fékk pakkann. Ég skuldsetti mig, mætti í vinnu, flutti í eigið húsnæði, bað konu að giftast mér og dóttir okkar varð eins árs. Mér leið yfirleitt vel og hafði ekki yfir miklu að kvarta persónulega. Öðru máli gegnir um heimsmálin sem virkilega er ástæða til að kvarta yfir. Engu að síður ætla ég að láta það ógert nú, minnugur um eigið máttleysi og takmarkað gildi þess að rífa sig andlega niður vegna hluta sem maður fær ekki breytt.

Jólin eru næstum liðin líka, þau klárast þegar systir mín heldur upp á 23 ára afmælið sitt þann 6. janúar. Hið ótrúlega gerðist, annað árið í röð, mér tókst að halda glaður jól. Fyrir þá sem ekki vita er jólagleði mín fólgin í því að þurfa ekki að heyra Jólahjól fyrir hátíðirnar. Eins og áður sagði þá tókst það og þakka ég almættinu fyrir. Meira óþolandi lag er vandfundið. Reyndar tóku einhver auglýsingaséni upp á því að nota lúðrabyrjunina í einhverja útvarpsauglýsingu sem olli því að ég var talsvert á nálum á aðventu. Hlustaði varlega á útvarp og leið eiginlega eins og ég væri að horfa á endalausan fótboltaleik þar sem Ísland, með 3 í vörninni, væri einu marki yfir en hitt liðið lægi stöðugt í sókn.

Framundan er mikið starf. Með hækkandi sól fjölgar útlendingum í North Face / Goritex fötum á Íslandi og því fylgir heilmikið umstang. Reyndar er jú talsvert eftir af þessum vetri, Þorrinn til dæmis, en á mínum bæ er ekki ráð nema í tíma sé tekið...

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Þrátt fyrir annir og appelsínur 

Þar sem formóðir vor, Frussa, hefur ekki enn komið sér upp leiðbeiningum hvernig vafrað skal um síður þessar, var henni afhent afrit af frussunni á pappír í jólagjöf.

Var það eintak eitt tröllaukið.

Við framkvæmd þessa gluggaði ég í ýmsa pósta og áttaði mig á, mér til mikillar skemmtunar, að vort blogg er bæði staðfesting á listrænum fullkomleika og einnig ómetanleg heimild um hvernig líf okkar fræga og fallega fólksins fer fram.

Því hvet ég ykkur, sampistlahöfunda mína, að slá ekki slöku við en bretta frekar upp ermar og pósta nú af kostgæfni um hugðarefni ykkar og annan barlóm, vel valdar sögur af mökum og undaneldi sem og fréttir af sjálfum ykkur, hægðum og lægðum.

Annars er bara allt gott að frétta af mér (svona ef að þið væruð að velta því fyrir ykkur(hmmmmm, hvernig skildi Lavi annars hafa það?)),(Gwelda má vera með sviga inní sviga inní sviga þegar maður setur sviga strax á eftir sviga þegar maður skrifar blogg?).

Annað var það ekki......

sunnudagur, janúar 02, 2005

God bless us, everyone... (vinsamlegt bros) 

Þá er það 2005. Læðist fram bros í munnviki í hvert sinn er ártal endar á fimmi. Þá á Gweldan stórafmæli.

Rétt er að líta yfir farinn veg á svo stórum tímamótum. Áramótum á ég við. Á fertugsafmælum á maður bara að líta fram veginn, svo mann ekki sundli...

Sjaldan held ég að ég hafi fundið eins til með mannkyninu eins og á þessu ári. Guð er ekki í góðu skapi þessa dagana, sagði frómur maður þegar fregnir bárust af manntjóni í eldsvoða í Buenos Aires um áramótin. Ekki orðum aukið. Ætlann sé ekki að rassskella okkur fyrir það hvað við erum staðföst í að reyna að útrýma okkur sjálf. Skyldum við læra eitthvað af því? Skyldu hamfarir hátíðanna vekja heimsbyggðina til umhugsunar um hversu mikils virði sérhvert mannslíf er? Eða skyldum við fella tár yfir heimilis- og foreldralausu barni við Indlandshaf, snýta okkur hraustlega og halda staðföst áfram að rústa heimilum og murka lífið úr foreldrum barna í Írak? Spyr sá sem reyndar veit svarið.

Á árinu kom út amerísk stórslysamynd um afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna. Ég hef reyndar ekki séð hana en reikna fastlega með því að einhverjir hugvitssamir amerískir ofurhugar hafi í lok myndarinnar náð að snúa þróuninni við og bjarga mannkyninu. Í alvöru veröldinni eru sófakartöflur heimsins, þær amerísku fremstar í flokki, að verða langt komnar með að gera áhrifin óafturkræf og guð blessi oss þá, öll sem eitt... Við Íslendingar vorum svo heppnir að fá aukakvóta út á fínu stóriðjuframkvæmdirnar okkar, megum sleppa meiru en góðu hófi gegnir út í heiminn okkar allra. Jibbí, svoddan atorka í stjórnarliðunum okkar! Ég fussa og sveia, keyri í vinnuna þó hún sé í göngufæri og flokka ekki sorp. Semsagt, fullkomið virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum. Svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Það kom líka út ný Stuðmannamynd á árinu. Hún var einn af plúsunum.

Hápunktar ársins hjá mér voru utanlandsferðir tvær. Dásamlegar báðar tvær, hvor upp á sinn. Ætla ekkert nánar út í það á þessu stigi enda sjálfsagt búin að gera þeim skil áður. Eitt situr þó í mér núna: Við flugum heim frá New York að kvöldi 4. júlí og upplifðum það að horfa niður á flugelda. Þegar ég var á leið frá Barcelona til Kaupmannahafnar í ágúst var mikið þrumuveður að ganga yfir Evrópu. Þá horfði ég ofan á eldingar. Eitthvað óraunverulegt við það.

Svo fór ég í skóla þó stutt væri. Það var gaman.

Hér verður gert hlé þar sem ég þarf að sinna mikilvægari málum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com