þriðjudagur, júlí 05, 2005
Man einhver eftir Freestyle keppninni?
Hér má sjá bandið OK GO taka lagið A Mllion Ways To Be Cruel (sem ég hélt fyrst að héti því meira passandi nafni A Mllion Ways To Be Cool) með ekki minni tilþrifum.
sunnudagur, júlí 03, 2005
Fjósasöguslútt
Ég bið lesendur velvirðingar á bið þeirri sem orðið hefur á framhaldi framhaldssögunnar. Bakið mitt flutti inn á hótel og bara ein tölva í lobbíinu. Svo fór tíminn sosum í annað.
Við ókum t.d. í þessum hestvagni. Ef vel er að gáð má sjá Tutlu Hammerz gægjast fyrir hornið á hestinum...
Við mæðgin nutum lífsins í Kaupinhafn. Á þriðja degi fórum við í Tívolí allra landsmanna, ásamt Tutlunni, Rannveigu vinkonu hennar og Aski syni Rannveigar. Mikill sólskinsdagur, mikill ís, Tívolíband og stuðmannahoppið æft. Undirrituð kynnti svo undur verslunar fyrir syni sínum daginn eftir. Bjó að því að Hérinn hafði sýnt henni sniðugar strákabúðir einhvern tímann um árið og gat því þrætt hliðargötur þar sem hver töffarabúðin á fætur annarri spratt fram og bauð drenginn velkominn. Hann fékk líka að kynnast Skjaldbökunni. Ripleys believe it or not safnið var skoðað daginn þann við talsverðan fögnuð og nokkurn ugg í viðkvæmu brjósti en brúnin léttist þegar dönsku hjónin fóru með okkur á alvörunni hamborgarastað. Að áti loknu bauð tengdamóðir Tutlu, frú Guðrún Hjartar, okkur í kvöldte. Kom í ljós að hún býr einmitt í húsinu sem ég hefði átt að eiga heima í...!
Þriðjudagsmorguninn hófst á því að María frænka kom með lestinni frá Lundi. Við tókum okkur svo langan tíma í að velja góðan stað til þess að "brönsa" á að við enduðum á pizzumorgunverði upp úr hádegi á Mama Rosa, sem, merkilegt nokk var fyrsti útlenski veitingastaðurinn sem ég borðaði á, fyrir tuttuguogeinu ári síðan. Svo fórum við á röltið. Tutlan kom á Tutlmóbílnum og sótti okkur niður á Nýhöfn og við keyrðum sem leið lá, alltaf topplaus, tek það fram, út til Dyrehave. Þar fórum við í þennan glæsilega hestvagn og skottuðumst með honum í dágóða stund um í skóginum. Enduðum á Bakkanum. Frænkurnar fóru í rússibanann en við mæðgin horfðum á, ekki tilbúin til þess að hætta lífi og limum í glæfraakstri á spýtnabraki, sem nóta bene er jafngamalt Frussu sjálfri. Skelltum okkur í kaffibollana í staðinn. Og sitthvað fleira. Þegar leið að kvöldi fórum við í grill til frú Guðrúnar sem bauð upp á dansk lagkage (sjá mynd) á eftir, öllum viðstöddum til ómældrar ánægju. Mágur minn, Grillmeister, beitti snilldartöktum. Lavi bíver.
Síðasta daginn notuðum við í Lúsí Tús safnið (fyrir ykkur sem ekki vitið, þá er það vaxmyndasafn) og dýragarðinn. Í þvílíku sólskinsveðri. Dýrin voru lekker. Enduðum Köbenreisuna á asísku áti á skemmtilegum stað, sem systir mín hefur síðustu árin ætlað að teyma mig á en aldrei tekist fyrr en nú. Svo flugum við heim seint að kvöldi. Nusi minn kom á völlinn að ná í okkur. Tveimur tímum eftir að við komum heim fór hann aftur á stjá, enda tími kominn á Danmerkurreisu hans. Hann er nú í Hróarskeldu og sendir út Rokkland í beinni á eftir.