miðvikudagur, október 26, 2005
Le jour de les femmes
Ég held að "awesome" hafi hrokkið upp úr einhverjum frændanum á leið niður Skólavörðustíg í hópi fimmtíu þúsund kerla. Filla föðursystir galandi og gólandi með makkarónur í sódavatnsflösku. Konur, höfum hátt.
10 ára piltur hugsar upphátt: "Fyrir þrjátíu árum varst þú tíu ára, mamma. Eftir þrjátíu ár verð ég fertugur eins og þú og kannski aftur í svona göngu á kvennafrídegi." Móðir hugsar í hljóði: "Bíttíðig, drengur, við verðum nú búin að kippa þessu í liðinn þá." Piltur veit að hann á aldrei eftir að gleyma þessum degi. Kerlunum sem söfnuðust saman heima hjá honum, skáluðu í kampavíni og sungu "Í augsýn er nú frelsi, og fyrr það mátti vera..." Fólksmergðinni sem dreif að Hallgrímskirkju, svo helst minnti á fé rennandi af fjalli. Biðinni eftir að mjakast af stað í göngunni. "Áfram stelpur, áfram stelpur!" hrópaði hann eins og hann ætti lífið að leysa. Mamma söng, arabajóðlaði og hristi makkarónurnar í gríð og erg. Og niður stíginn bárust þau, flutu með straumnum. Miðja vegu hitti hann nokkur átrúnaðargoð og missti sjónar af móður sinni þar til komið var niður á Lækjartorg. Eftir það þótti vissara að sleppa ekki hendi af henni.
Klukkutíma tók að nuddast frá Lækjartorgi að Ingólfstorgi, þar sem barátturæður voru fluttar. Piltur var um það bil að missa þolinmæði og krafta þegar því fyrirheitna landi var loks náð. Þar stóð hann keikur með móður sinni og söng með þúsundum kvenna: "En þori ég, vil ég, get ég? Já, ég þori, get og vil!" Sat keikur, steggurinn, við borðsendann á veitingastað eftir hátíðahöldin með sjö "stelpum" og gæddi sér á hamborgara og ís. Síðar um kvöldið rölti hann heim á leið með móðurinni og ræddi stjórnmál og jafnrétti og mannréttindi og lífið og tilveruna - íklæddur pappaspjöldum sem hann fann á leiðinni; Konur, höfum hátt! Sannur femínisti, sonur minn.