<$BlogRSDUrl$>
Google

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Tutla does Laugar (eða Sveitakona fer í baðhús) 

Ég er frábær.

Ég er æðisleg.

Æðisleg!!!

Þetta voru hugsanirnar þegar ég gekk út úr Laugum rétt eftir hádegið í dag.
Mér finnst ég æðisleg.
Frábær.
Með æðislegan kropp.
Æðisleg.

Mér fannst ég svo æðisleg að ég þurfti að hringja í vin minn undrabarnið og stílistann minn og segja honum hvað ég væri æðisleg. Hann var að sjálfsögðu alsæll með mig.

Ég fór nebblega í steinanudd.
Eða Heilmeðferð, eins og það er kallað.
Þær þurftu að segja mér þrisvar hvað þetta hét.
Ég hélt áfram að svara að ég væri að fara í svona steina.
Þetta útskýrðist þegar ég sagðist hafa borgað tíuþúsundkall.

Aðdragandinn að þessu var að Stórkostlegi kærastinn minn var á því að ég ætti að fá svona dekur. Bara dekra og dekra við mig.
Ég var auðvitað ekkert á því að dekra við mig svo ég notaði allar mögulegar fjárhagslegar afsakanir til að koma mér undan þessu en ekkert gekk.
Dekruð skyldi ég.

Ég fann þá upp á því að boða Löngulöng og Gweldu og Frussuna sjálfa með í dekur.
En neeei.
Það var ekki nógu gott.
Ég skyldi extra dekruð.
Svo ég var send til að pannta extra dekur fyrir mig.
Svona á ég Stórkostlegan Kærasta.

Mitt dekur var svo í morgun og mæðgnadekrið verður á morgun.

Þetta byrjaði allt á því að mér tókst ekki að starta bílnum í morgun svo ég tók leigara í dekrið. Ekki þorði ég að verða of sein.
Hreyfill Góðan Daginn skilaði mér af fyrir utan glæsihúsið Laugar í Laugardal.
Ég trítlaði mér inn og sagðist vera að fara í nudd.
Þetta var klukkan tíu svo það hafa örugglega einhverjar þúsundir Íslendinga gengið þarna um síðan í bítið. Það voru margir í spriklinu.

Stúlkan var svo væn að hleypa mér inn.
Við hliðið stóð eldri kona með örvæntingu í andlitinu sem starði inn í eitthvað tæki og tautaði í sífellu: "Ég kemst ekki inn, ég kemst ekki inn!"
"Þetta er agalegt" svaraði ég, og var nærri því búin að bæta við, "það hlýtur að vera eitthvað að auganu á þér". Ég skynjaði að við hugsuðum báðar að það gæti ekki verið neitt að þessari fínu augnskannatækni í Laugum.
Ég gekk svo í gegn og hún prófaði fleiri augu.

Þegar inn var komið tók ég eftir því að það var starað á mig. Eða réttara sagt appelsínugula Hagkaupsplastpokann sem geymdi handklæðið mitt og sundbolinn.
Þá tók ég eftir því að líklega væri þetta svona staður þar sem metist væri um íþróttatöskur og sportfatnað. Mér þótti allt í einu dáldið vænt um plastpokann minn þó mér finndist hann allt í einu pínulítið appelsínugulur.

Ég fékk svo leiðsögn og var hleypt inn í búningsklefann. Kom þá í ljós að maður fékk slopp og handklæði. Örugglega flestir bara mjög kúl á þessu með sloppinn og handklæðin en ég var náttúrulega bara ofsaglöð og fannst þetta alveg brjálæðislegt.
"Vámaður, handklæði!!!"
Mér fannst ég ekkert smá fín í sloppnum mínum og var ofsalega hlýtt innaní yfir þessum fallega stað þar sem maður fengi svona mjúk, alveg ókeypis, handklæði.

Á meðan ég skipti um föt kíkti ég pínulítið á hinar konurnar. Þær voru allar mjög fitt og fínar á kroppinn. Ein var í svona hjólabuxum og topp og maður starði dáldið á mallann á henni því það var enginn. Það var bara brúnka og vöðvar alveg obboðslega skírt. Og svo fór maður að kíkja á hvað fylgdi þessum maga og þá var barasta svona obboðslega gamall haus efst. Reyndar rosalega mikið málaður haus með svörtu hári. Ég hef aldrei séð svona gamla leðurmanneskju með svona tónaðann maga. Í Danmörku situr svona leðurfólk á bekkjum og drekkur öl.
Á Íslandi gengur það um með beran maga.

Það voru fleiri fínar konur þarna í búningsklefanum en sú sem sjokkeraði mig mest var eldri kona alveg alsber að neðan. Hún var líka mjög skringilega vaxin þarna niðri og það sást mjög greinilega þegar hún var svona alsber. Ég fer ekkert út í nánari lýsingar en þið eruð öll með símann hjá mér ef þið vitið ekki hvað ég meina.
Ég fékk svo mikið sjokk að ég vona að Frussan sjái enga svona fullorðna konu sem er alsber að neðan þegar við förum á morgun.

Svo fór ég í nuddið.
Ó, þvílík himnaríkissæla.

Fyrst var ég burstuð og svo var ég skrúbbuð og svo var ég sturtuð og svo var ég olíuborin og svo var ég nudduð með ... áááátttsssjjj .. heitum steinum og svo var ég nudduð aftur. Ummmmmm. Slökun.

Og svo fór ég í baðstofuna og það var voðalega gaman.
Ég fór í lavendergufu og aðra gufu og þarna var baðvörður sem bennti mér á að fara inn á matstaðinn og fá mér vatn. Ég fór svo í saltvatnspott og hún kom aftur og spurði hvernig gengi. Ég sagði henni, alsæl, að allt væri í himnalagi og að ég væri óskaplega glöð og hamingjusöm. Henni fannst þetta greinilega grunsamlegt og heimtaði að ég færi og drykki vatn.

Inni á matstaðnum hitti ég svo fyrir konu sem hafði fengið Tyrkneskt bað að gjöf.
Sú var ekki sæl.
Hún var eiginlega bara fýld.
Hún spýtti út úr sér "fyrsta skipti?" og þegar ég játti því, "þetta er gott á okkur!". Ég gat ómögulega séð hvernig þetta gæti verið gott á okkur að fá að vera á þessum himnaríkisstað svo ég flýtti mér bara að drekka vatnið mitt og segja henni að ég ætti eftir að prófa piparmyntugufuna.
Ég hélt svo áfram að vera sæl undir Tropical sturtu en ákvað að láta fleiri upplifanir baðstofunnar bíða þar til ég gæti prófað þær með Frussunni á morgun.

Ég fékk hjálp hjá góðri stúlku svo ég rataði í kvennaklefann aftur. Ég varð þó að leita ásjár hennar aftur því eins og ég orðaði það við hana "ég er ekki með svona auga".
Undir sturtunni rak ég svo augun í þokkadís sem mér fannst svo ansi fín á kroppinn.
"Helvíti er þetta fínt gymm, allir svona flottir á kroppinn hérna".
Við nánari athugun kom í ljós að þetta var alls ekki hennar kroppur.
Annað sjokk.
Þarna var þá komin svona sílíkona.
Þær fundust varla á Íslandi þegar ég flutti héðan fyrir um 10 árum.

Ég tosaði græna handklæðið mitt upp úr Hagkaupspokanum því það var þurrt og ég er hlýðin. Það stóð nebblega á skilti að við ættum að vernda náttúruna og þess vegna væri bara eitt handklæði á mann. Mitt get ég jú notað aftur áður en ég þvæ það og fær úr því enn meiri verndun.

Uppgötvaði aðra nýung, sundfataskolunarvélina.
Vúptí, allt skolað og undið!
Ég varð aftur glöð og hlý að innan.

Ég pillaði mig í fötin og ég held að sílíkonan hafi starað jafn mikið á mig og ég starði á hana. Það var líka starað á mig í kantínunni þar sem stressuð afgreiðslustúlka var svo hröð að afgreiða mig að hún þurfti að afgreiða mig aftur þegar ég sagði henni að ég vildi líka drekka. Ég hafði annars bent á borð og sagt að ég ætlaði bara að fá svona súpu og salatbar og hún svaraði, "þú meinar hlaðborðið?"

Jú, ég meinti hlaðborðið.
Og ég fékk þunna kjötsúpu og spínat. Reyndar þennan fína graflax og ég var sæl.

Við hlaðborðið var búði að slá saman borðum og þar sat að mér sýndist eigandinn með fylgisveinum og meyjum. Þau litu allavega öll út fyrir að vera öll rosalega mikilvæg, alvarleg og afslöppuð. Eða þannig. Flestir karlarnir voru miðaldra með strípur.
Þar sem ég sötraði súpuna mína sá ég út um gluggavegginn sílíkonuna ganga út með blásið hárið og alla brúnkuna. Með töluvert eldri mann sér við hlið. Hann var mjög stoltur og geislandi.

Og allir gutu mig hornauga.
Kannski af því að ég var í bommsum og náttbuxum undir fiðrildapilsinu mínu.
Kannski út af því að ég var með Hagkaupspoka.
Kannski af því að ég var sú eina sem brosti.

Kannski af því að síðast þegar einhver kom í Laugar í leigara og svipaðri múnderingu var það einhver frægur?

Eitt er víst að ég var alsæl.
Ég labbaði heim úr Laugardalnum, með sundbolinn minn í plastpoka, alsæl með al-ekta kroppinn á mér og frostið í hárinu. Ég þekki stuttu leiðina í gegnum Laugardalinn og rifjaði upp æskuna alla leið inn á Langholtsveg. Ég man hvað ég týndi oft sunddótinu mínu á leiðinni heim með strætó. Að ég kunni símanúmerið hjá SVR utanað.
Og að ég var aldrei með húfu því mér fannst svo gaman að koma við grjóthart, frosið hárið á mér eftir sundið.

Og að ég var æðisleg.

Maturinn var þó búinn úr maganum á mér þegar ég kom heim, glorhungruð.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Weblog Commenting by HaloScan.com